Desemberpistill

Foreldrasamstarf Foreldrasamstarf skiptir miklu máli í lífi barns sem ađ eyđir stórum hluta úr degi hverjum í skólanum sínum. Í nútímasamfélagi eru

Desemberpistill

Foreldrasamstarf

Foreldrasamstarf skiptir miklu máli í lífi barns sem að eyðir stórum hluta úr degi hverjum í skólanum sínum. Í nútímasamfélagi eru skólarnir að verða annað heimili nemandans og því mikilvægt að samstarf milli heimili og skóla sé gott. Foreldrar þekkja börnin sín best af öllum og geta veitt bestu innsýn í hugarheim barnsins, hver áhugamál þess eru, vonir og væntingar og hvernig barninu finnst best að vinna að markmiðum sínum. Í sameiningu getur skólinn, nemandinn og foreldrarnir unnið saman að því að barninu vegni vel innan skólans og vinni með þau markmið sem  barnið og uppeldisaðilar hafa sett sér. Að koma til móts við óskir foreldra hefur mikið að segja um hvernig framhald á samvinnu verður. Ef hlustað er á óskir foreldra, ásamt því sem talið var upp hér að framan, má með nokkurri vissu segja að útkoman verði góð. Þá eru allir sérfræðingar í lífi barnsins ásamt barninu sjálfu búnir að leggjast yfir verkefnið og kortleggja hvernig og hvað gera skuli svo útkoman verði góð og ánægjan í fyrirrúmi. Samvinna er skilvirk leið til að fá fólk til að deila þekkingu sinni og reynslu og með henni fæst fram styrkur og fjölbreytt sjónarhorn á málunum sem verið er að fást við. Samvinna á milli foreldra og skóla hefur mikinn ávinning fyrir báða aðila. Með því að upplýsa foreldra um starfið eru þeir líklegri til að sýna því áhuga hvað börnin eru að gera og einnig er líklegra að þeir fái áhuga á að taka þátt í starfinu. Kennari þarf að gefa upplýsingar um það sem gerst hefur í skólanum, en hann þarf líka að fá upplýsingar frá foreldrum barnsins um helstu atburði í lífi þess utan skólans. Ef breytingar verða á högum barnsins eða fjölskyldulífi þarf kennarinn að fá að vita um það vegna þess að það getur haft áhrif á líðan þess og hegðun í skólanum. Þegar um foreldrasamstarf er að ræða þá eru kennarar og foreldrar sammála um að vinna að sameiginlegu markmiði. Samstarf sem þetta krefst þess að sjálfsögðu að það sé samræmi milli væntinga og afstöðu foreldra og kennara til barnsins. Allt samstarf krefst þess að báðir aðilar viti hvað hinn leggur af mörkum til að leysa vandamál og til að standast væntingar. Foreldrasamstarf er samband á milli fólks sem með virðingu fyrir þekkingu, færni, eiginleikum og afstöðu hvers til annars vinnur að sama markmiði sem byggt er á sameiginlegum auði. Gott samstarf byggir á gagnkvæmu trausti og sameiginlegri ábyrgð og ákvarðanatöku. Það snýst um jafngilt samband. Þegar nemandi skynjar gott samstarf og traust á milli þeirra aðila sem koma að hans uppeldi og menntun vegnar viðkomandi betur í námi og sínu starfi sem þar fer fram.

 

Kristjana Guðmundsdóttir.