Október pistill

Hilmar Sigurjónsson skrifar. Međ ţessum fyrsta pistli sem skrifađur er til birtingar á heimasíđu skólans er ćtlun okkar ađ innleiđa nýjung sem vonandi

Október pistill

Hilmar Sigurjónsson skrifar.

Með þessum fyrsta pistli sem skrifaður er til birtingar á heimasíðu skólans er ætlun okkar að innleiða nýjung sem vonandi verður að hefð. Hér á starfsfólk skólans þess kost að birta  stuttar greinar þar sem það getur viðrað skoðanir sínar og hugmyndir um skólastarf og uppeldismál. Það er von mín að greinarnar verði til þess að vekja fólk til umhugsunar um þau mál sem fjallað er um hverju sinni. Þannig verða þær uppspretta gagnrýninnar umræðu um uppeldis og skólamál.

Þessi fyrsti pistill fjallar um heimavinnu eins og við nefnum þann þátt skólastarfs sem oft er  nefndur  heimanám. Ástæða þess að við veljum að nota orðið heimavinna en ekki heimanám liggur í raun og veru í nafninu sjálfu. Eðli heimavinnu og megintilgangur er þjálfun og æfing þess efnis sem farið hefur verið yfir í kennslustundunum. Eiginlegt nám hefur aftur á móti orðið til í kennslustundinni þegar kennarinn opnaði gáttir þess fyrir nemandanum.

Ýmsir fræðimenn hafa rannsakað heimanám, eðli þess , tilgang og áhrif. Skilgreining þeirra er sú að það sé  í öllum tilfellum kennari sem felur nemendum að vinna ákveðin verkefni utan kennslustunda. Þessir sömu fræðimenn hafa skilgreint tilgang heimavinnu í nokkrum liðum. Meðal þeirra má nefna að líta skuli á heimavinnu sem samskiptatæki sem foreldrar  geti nýtt til aðstyrkja samband sitt við barnið. Einnig er bent á að þegar skóli hefur það á stefnuskrá sinni að nemendur skuli vinna ákveðin verkefni heima,  sé það yfirlýsing um ákveðinn metnað í skólastarfinu. Einnig er bent á að heimavinna auki skilning nemenda á námsefninu ásamt því að  þeir temji sér betri námsvenjur og sjálfsaga. Að  efla þessa þætti hjá nemendum er mjög mikilvægt fyrir allt nám þeirra og því þarf kennarinn að huga að því að magn heimavinnu sé ekki svo mikið að nemendur verði fráhverfir því . Sýnt hefur verið fram á að mikil heimavinna hefur engan tilgang hjá yngstu nemendunum en samt komi það  þeim til góða að þurfa að skila hóflegri heimavinnu af sér. Þannig skynji þeir strax að það sé óaðskiljanlegur hluti þess að vera í skóla og skilar sér ríkulega þegar þeir eldast og krafan um meiri vinnu kemur fram. En samhliða því þurfa þeir einnig að skynja að heimavinnan hafi eitthvert vægi. Heimavinna sem ekki er litið eftir, metin og leiðrétt í skólanum verður þannnig merkingarlaus og hefur engan tilgang.

Í allri heimavinnu hafa foreldrar vissulega hlutverk. Ekki þó þannig að að þeir verði beinir þátttakendur í vinnunni heldur með því að veita barninu  stuðning með því t.d. að hlusta á það lesa, ræða um efnið, og vera þannig hvetjandi þátttakandi. Einnig þurfa þeir að skapa jákvæðar aðstæður til náms. Nota alltaf sama svæði þar sem auðvelt er að fylgjast með barninuog velja rólegan tíma á degi hverjum til vinnunnar. Þetta er einungis hægt að gera hafi fólk tíma og tækifæri til og því verður fólk einfaldlega að skipuleggja tíma sinn með þetta í huga.

Um fyrirkomulag heimavinnu þarf að ríkja sátt í skólasamfélaginu öllu til að samskipti heimilanna og skólans séu sem best. Til að svo verði þurfa kennarar að huga að því að vinnutími nemendanna heima verði ekki óhóflega langur. Einnig verður að líta til mismunandi vinnuhraða nemenda  og ekki má ætlast til að þeir nemendur sem vinna hægast í skólanum vinni það upp með því meiri vinnu heima. Vinnutími nemenda er orðinn æði langur, sérstakleg þegar  við teljum með íþróttir og annað félagsstarf nemenda . Því er ljóst að samræmi og sátt þarf að vera milli krafna kennarans og foreldranna til heimavinnunnar. Þá  getum við verið viss um heimavinnan styrkir nemandann sem sjálfstæðan einstakling og verður aðeins til góðs til lengri tíma litið.