Dagur íslenskrar tungu í skólanum

Í dag 16.nóvember er dagur íslenskrar tungu.
Nemendur ásamt Önnu Björgu og Rúnu hengdu upp nýyrðasafn Jónasar Hallgrímssonar á göngum skólans og á bókasafninu.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um Jónas Hallgrímsson og kveðskap hans. Jónas hefur í hátt á aðra öld verið eitt af ástsælustu skáldum þjóðarinnar og enn er lítið farið að fyrnast yfir hann eins og mörg eldri skáldanna sem þó ortu fögur og stórbrotin ljóð. Ekki gera allir sér grein fyrir því hversu góður orðasmiður Jónas var og enn færri minnast þess að Jónas skrifaði fleira en ljóð. Hann var góður þýðandi og skrifaði einnig talsvert um fræðasvið sitt náttúrufræðina. Virðing hans fyrir tungumálinu, málkennd hans og næmi fyrir blæbrigðum tungunnar gerðu honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þann búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins.

Hér má sjá myndir af orðasafninu sem er í alrými skólans og á bókasafni skólans.

Gaman er fyrir nemendur að skoða orðin og hugsa um hvað það merkir.