Skólahjúkrun

Skólahjúkrunarfræðingur er Gunnhildur Ósk Sæbjörnsdóttir og er hún starfsmaður Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Hún hefur viðveru í skólanum á þriðjudögum frá 8:30-12:00. Heilsuvernd skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Heilsuverndin stendur öllum skólabörnum til boða. Unnið er í samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Skólahjúkrunarfræðingur situr í nemendaverndarráði skólans.

Reglubundnar skimanir

Skimanir eru framkvæmdar í 1., 4., 7., og 9. bekk og felast í mælingu á hæð, þyngd og sjónskerpu. Einnig er heyrnarmælt í 1. bekk og litarskin athugað í 7. bekk. Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til. Þegar þessar skimanir fara fram ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um lífstíl og líðan og er markmið þessarra viðtala að styrkja vitund nemenda um þessa þætti. Niðurstöður skimana og viðtalsins eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.

Bólusetningar

7. bekkur: Bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (ein sprauta). Stúlkurnar fá auk þess bólusetningu gegn leghálskrabbameini en gefnar eru þrjár sprautur yfir veturinn. 9. bekkur: Bólusett gegn mænusótt, barnaveiki og stífkrampa (ein sprauta). Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing. Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra.

Fræðsla / heilbrigðishvatning / forvarnir

Heilsuvernd skólabarna sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6 H heilsunnar, sem er samstarfsverkefni heilsuverndar skólabarna og Lýðheilsustöðvar. Tengill sem vert er að skoða er 6h.is. Áhersla fræðslunnar eru: Hollusta - Hvíld – Hreyfing – Hreinlæti – Hamingja og Hugrekki. Einnig verður fræðsla um kynþroskann og kynheilbrigði í eldri bekkjum. Eftir fræðsluna fá foreldrar sent fréttabréf heim með tölvupósti. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.

Lyfjagjafir í skólanum

Í engum tilvikum getur skólabarn borið ábyrgð á lyfjatöku. Ábyrgðin er foreldra en skólahjúkrunarfræðingur og starfsmenn skólans aðstoða börn við lyfjatöku. Þurfi barn að taka lyf á skólatíma eru þau geymd hjá ritara í læstum skáp. Öll meðferð lyfja í skólanum er í samræmi við tilmæli landlæknisembættisins. Tannvernd Heilsuvernd skólabarna býður upp á flúorskolun í 1., 7., og 10. bekk í 12 skipti yfir skólaárið. Nýjar fullorðinstennur hjá þessum aldurshópi njóta góðs af reglulegri flúorböðun og talið er að það minnki líkur á tannskemmdum.