Skemmtilegt verkefni

Fjölbreytni er valgrein þar sem allir nemendur 8. – 10. bekkjar takast á við fjölbreytt verkefni sem mörg krefjast samvinnu og að horft sé út fyrir þægindarammann. Nemendur takast á við þrautir ýmiss konar, vinna spunaleikrit, læra félagsvist, syngja saman, dansa og svo mætti lengi telja. Fyrir skemmstu var þeim skipt í hópa og fengið það verkefni að velta fyrir sér því sem vel væri gert hér á Eskifirði og í framhaldi að koma með tillögur að tækifærum til að gera góðan bæ betri. Afrakstur vinnunnar var flottur og var fulltrúum 10. bekkjar í nemendaráði fengið það hlutverk að afhenda Kristni Þór Jónassyni formanni Íbúasamtaka Eskifjarðar tillögurnar með hvatningu um að þær yrðu skoðaðar nánar og nýttar ef hægt væri. Á myndinni má sjá þá Vögg Jensson og Svein Sigurbjarnarson afhenda Kristni Þór tillögurnar.