Gjafmildi Útstekkshjóna

Líkt og undanfarin ár hefur skólinn notið góðst af hinni miklu gjafmildi heiðurshjónanna Heiðbergs Hjelm og Sjafnar Gunnarsdóttur á Útstekk. Þau hafa um árabil gefið kjöt sem er ómetanlegt í heimilisfræðikennslunni. Í haust fékk skólinn þrjá heila skrokka.

Nemendur hafa ekki bara lært að elda kjötið heldur meðhöndlun þess. Kristín Lukka hefur kennt þeim að hakka, skera og pakka kjöti ásamt því að kenna þeim hvað hlutarnir heita. Á myndunum sem fylgja hér með má sjá nemendur að vinna kjötið frá Útstekk.

Þegar kjötið hafði borist í haust fannst okkur í skólanum ótækt að við færðum ekki Heiðberg og Sjöfn einhvern þakklætisvott fyrir. Ákveðið var að setja saman körfu með hlutum sem unnir voru í skólanum. Meðal þess sem var í körfunni var brauðbretti og smjörhnífur sem smíðað var í skólanum og smákökur sem voru bakaðar. 

Á dögunum var farið að færa Heiðberg og Sjöfn þakklætisvottinn. Sjöfn var ekki heima við en Heiðberg tók við gjöfinni úr höndum þeirra Blædísar Birnu Árnadóttur og Thelmu Sól Steindórsdóttur nemendum í 9. bekk. Á myndinni með fréttinni má þau og körfuna.

Við þökkum þeim Heiðberg og Sjöfn enn og aftur kærlega fyrir þennan mikla hlýhug sem þau senda skólanum.