Heilsudagur að vori

Dagurinn átti upphaflega að vera föstudaginn 11. maí en var frestað vegna veðurútlits. Ákveðið eftir töluverða yfirlegu yfir veðurspám að halda hann miðvikudaginn 16. maí enda skein sólin á nemendur og starfsfólk. Hvert stig hafði skipulagt dagskrá. 

Nemendur og starfsfólk yngsta stigs gekk út á Mjóeyri, naut þar náttúrunnar og skemmti sér í leikjum fram að hádegi.

Nemendur og starfsfólk miðstigs gekk inn í Dalinn og gróðursetti þar 134 birkiplöntur í reit sem útbúinn hefur verið af Skógræktarfélagi Eskifjarðar. Plöntunin er samstarfsverkefni skólans, Skógræktarfélagsins og Yrkjusjóðs sem úthlutar plöntum árlega. Að verkinu loknu var farið í sund og verið þar fram að hádegi.

Nemendur elsta stigs hófu daginn í sundlauginni en héldu síðan á Eskjuvöll. Þar var þeim skipt í lið sem kepptu í fjölbreyttum keppnisgreinum. Eftir keppnina var haldið upp í skóla um hádegisbil.

Dagurinn endaði á hádegismat í skólanum og síðan héldu nemendur heim á leið. Frábærlega heppnaður dagur í fallegu veðri.