Lestrarárangur 2025

 

Lestrarárangur 2025


Eitt af haustverkum nemenda í Eskifjarðarskóla er að þreyta lesfimipróf. Lesfimiprófið metur færni sem  birtist í nákvæmum,  sjálfvirkum og fyrirhafnarlausum  lestri. Þegar niðurstöður prófsins 2025 eru bornar saman við prófið frá 2024 kemur í ljós að nemendur hafa í heild bætt sig og ánægjulegt er að sjá, að þeir hafa á öllum stigum tekið framförum og lesa nú af meira öryggi og flæði. Það er mikilvægt að nemendur séu duglegir að æfa sig í lestri. Regluleg þjálfun heima og í skóla skiptir  þar öllu máli og er trygging fyrir því að hvert barn geti náð sínum besta mögulega árangri.

Hvernig er hægt að efla lestrarfærni barna? 

  • Reynið að skapa reglu og gott andrúmsloft í kringum heimalesturinn strax í upphafi skólans þannig að lesturinn geti orðið ánægjuleg samverustund.

  • Skoðið bókina með barninu og beinið athygli þess að umgjörð bókarinnar, heiti hennar, myndum, sögupersónum o.fl. til að komast inn í efni sögunnar og vekja áhuga á því.

  • Látið barnið fylgja línum eftir með fingri um leið og það les.

  • Rifjið upp stafi og hljóð sem barnið hikar við og fylgist með að það þekki örugglega alla stafina því það er grunnur að góðri lestækni.

  • Gott er að spyrja leiðandi spurninga til að fá barnið til að giska á innihald sögunnar og tjá sig um það t.d. um atburði, framvindu, fyrirætlan, hugarástand og líðan sögupersónanna.

  • Fáið barnið til að segja frá efni sögunnar, ræðið efni textans og látið reyna á ályktunarhæfni þess.

  • Hrósið barninu fyrir það sem gengur vel til að uppörva það og hvetja.

  • Reynið að vera þolinmóð og jákvæð og láta barnið ekki heyra ef þið eruð áhyggjufull, talið við kennara ef lestrarnámið gengur ekki nægilega vel.

Tekið af: Lesvefurinn