Skólahald við sérstakar aðstæður - Páskafrí

Við í Grunnskólanum á Eskifirði höfum reynt eins og hægt er að aðlaga skólastarfið okkar að þeim breyttu aðstæðum sem við öll höfum fundið fyrir og snertir allt þjóðfélagið. Við reynum eins og hægt er að fylgja þeim fyrirmælum sem yfirvöld gefa út og hvetjum nemendur jafnt sem starfsfólk að virða eins og kostur er mátt skynsamlegrar fjarlægðar og þrifnaðar.

Hvert aldursstig nemenda er eins aðgreint og hægt er og hver bekkur heldur saman sem eining. Nemendur elsta stigs er í skólanum fram að hádegismat en þá fara nemendur heim og vinna þá verkefni í fjarnámi undir stjórn kennara. Nemendur miðstigsins koma seinna í skólann og eru lengur fram á daginn í kennslu, þeir snæða hádegismat hver bekkur í sínu lagi. Nemendur yngsta stigsins halda nokkurn veginn sínum skóladegi enn sem komið er og Dvölin stendur þeim til boða eftir hádegi, þó með skertri starfsemi. Í nokkrum tilfellum hafa foreldrar ákveðið að halda börnum sínum heima og þá er mikil nauðsyn á góðum samskiptum milli kennara og foreldra þannig að nemendur geti sem best haldið sínu striki í náminu.

Starfsmenn skólans hafa mætt þessum miklu breytingum með jákvæðni og eru svo sannarlega að gera sitt besta. Þessar breytingar á skólastarfinu reyna mjög á og á einhverjum tímapunkti gætu frekari breytingar átt sér stað en þær verða vel kynntar fyrir foreldrum áður. Við höldum stefnu okkar ótrauð fram að páskafríi en sjáum til hvort nauðsynlegt reynist að ráðast í frekari breytingar á skipulagi.

Skólastjórar grunnskólanna í Fjarðabyggð eru í nánu samstarfi þessa daga undir stjórn fræðslustjóra. Þeir hittast reglulega á netfundum og ráða þar ráðum sínum.

Páskafríið hefst að loknum skóladegi, föstudaginn 3. apríl. Nemendur mæta aftur til vinnu sinnar í skólanum miðvikudaginn 15. apríl. Fyrir þann tíma mun foreldrum verða tilkynnt það skipulag sem unnið verður eftir vikurnar eftir páskafrí. 

Við þökkum foreldrum þeirra góða þátt í að við höfum getað haldið skipulaginu okkar eins vel og raunin hefur verið. Það er öllum ljóst að heimili og skóli þurfa að vinna þétt saman þessa dagana þar til við sjáum fyrir endann á þessum vágesti sem herjað hefur á okkur.