Þorrablót 1.-5. bekkjar

Sú hefð er innan skólans að yngri nemendur sækja þorrablót en þeir eldri árshátíð sem er nk. fimmtudag. Hver bekkur undirbýr skemmtiatriði sem eru flutt á þorrablótinu. Í kjölfarið eru atriðin betrumbætt fyrir hina árlegu vorskemmtun en þar geta íbúar komið og notið með okkur. 

Meðal skemmtiatriða var leikur, söngur og upplestur. Nemendur fá góða þjálfun í því að skapa atriðin og að koma fram og flytja þau fyrir framan fullan sal. 

Þorrablótið hófst klukkan þrjú og þá höfðu prúðbúnir nemendur safnast saman í uppábúnum sal skólans og Ásta Stefanía aðstoðarskólastjóri kynnti fyrsta atriðið til leiks en það var atriði frá 1. bekk. Síðan fór hver bekkur fyrir sig að matarborðinu.

Á matarborðinu var m.a. að finna hangikjöt ásamt meðlæti, súrmat, kæstan hákarl, laufabrauð, flatbrauð, rúgbrauð, harðfisk og ferska sviðasultu. Dagana á undan hafði heimilisfræðikennarinn Kristín Lukka undirbúið veitingarnar í samstarfi við eldri nemendur en þeir aðstoðuðu einnig á þorrablótsdag. Allt var heimagert fyrir utan súrmatinn, hákarlinn og harðfiskinn.

Nemendur voru mjög duglegir að smakka matinn þrátt fyrir að sumir fitjuðu upp á nefið þegar að matarborðinu kom. Eftir að allir höfðu klárað að borða hélt skemmtidagskráin áfram og aðrir bekkir fluttu sín atriði. Á milli atriða var fjöldasöngur þar sem gömul íslensk lög voru sungin. Þegar klukkan var orðin rétt rúmlega hálf fimm lauk dagskránni og allir héldu til síns heima glaðir og sælir með afar vel heppnað þorrablót.

Nemendur og starfsfólk á skilið miklar þakkir fyrir þennan skemmtilega viðburð.