Um afmælisboð

Um afmælisboð
 
Afmælisdagar eru mikilvægir dagar í lífi barna og um árabil hefur það tíðkast að mörg börn bjóði samnemendum í afmælisveislur. Margir yngri krakkar upplifa þetta sem félagslega viðurkenningu og hvað sem okkur finnst um það, er þetta þeirra veruleiki. Skólinn getur auðvitað ekki ákveðið hvernig fjölskyldur hafa afmælisboð en þegar út af bregður með þetta hefur það yfirleitt mikil neikvæð áhrif á samskipti barna og skilar sér þannig inn í skólann í viðfangsefnum sem við verðum að leysa úr.
Það er mikilvægt að foreldrar hafi í huga hvernig börn hugsa þegar ákveðið er hverjum skuli boðið í afmæli. Það að vera ekki boðið í afmæli þar sem meginhluta bekkjarins eða hópsins er boðið getur haft mjög neikvæða upplifun í för með sér fyrir barn sem fyrir því verður. Sum börn kjósa að bjóða aðeins sínum allra bestu vinum eða bara fjölskyldunni og svo eru aðrir sem láta afmælisdaga bara líða hjá eins og aðra daga og það er auðvitað í góðu lagi.
 
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að barn vill ekki bjóða samnemanda í afmæli en það er okkar, fullorðna fólksins, að leysa úr slíkum vanda. Sum börn eiga í erfiðleikum með að fylgja viðurkenndum samfélagslegum viðmiðum um hegðun og þá má einfaldlega bjóða foreldrum með í afmælið eða fá aðra fullorðna til aðstoðar. Þá eru ekki allir bekkjarfélagar vinir og stundum getur verið að börn hafi átt í deilum og vilji þess vegna ekki bjóða einhverjum í afmæli, en þá má líta þannig á að afmælisboðið sé einmitt tilvalið til að bæta samskiptin og leggja nýjan grunn.
 
Þá er líka kurteisi að mæta í þau afmæli sem manni er boðið í og ef maður kemst ekki, að láta þá vita í tíma.
Í Eskifjarðarskóla hefur tíðkast að nemendur fá að dreifa afmælisboðskortum í skólanum. Það á þó aðeins við þegar öllum í skilgreindum hópi er boðið í afmæli, öllum bekknum/námshópnum eða öðru kyninu. Við biðjum ykkur að virða þetta því ef um annarskonar boð er að ræða valda þau oftast einhverjum leiða og við viljum ekki taka þátt í slíku.
 
Það að upplifa sig tilheyra hópi er hverri manneskju mikilvægt og þá hefur reynslan líka sýnt okkur að þeir sem upplifa útilokun beita stundum allskonar neikvæðum leiðum til að reyna að sanna sig og öðlast viðurkenningu. Í skólanum okkar eru börn sem eru að læra viðeigandi samfélagslega hegðun sem vonandi verður þeim gagnleg til framtíðar. Þess vegna er það hluti af okkar starfi að byggja upp jákvæða skólamenningu þar sem allir eru velkomnir. Það mun ganga betur ef við hjálpumst öll að og erum samtaka í þessu verkefni og afmælisboðin eru hluti af því.